154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held þá áfram máli mínu. Þá er ljóst að innviðir okkar, þar á meðal húsnæðis-, heilbrigðis- og menntakerfi, eru undir miklu álagi og eru ástæður þess margþættar. Ein af þeim er mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá hefur málsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun, bæði við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd sem og á leyfasviði stofnunarinnar, lengst gríðarlega og er orðinn langtum lengri en ásættanlegt er. Hið sama gildir um málsmeðferðartíma hjá kærunefnd útlendingamála sem skýrist fyrst og síðast af gríðarlegum fjölda kærumála.

Til að mæta þeim áskorunum sem blasa við í verndarkerfinu þarf að grípa til aðgerða til að tryggja að verndarkerfið sé til staðar fyrir einstaklinga sem þarfnast raunverulegrar verndar gegn ofsóknum eða stríðsástandi. Ríkisstjórnin kynnti fyrir um tveimur vikum heildarsýn sína í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda sem er stefnumarkandi og þar sem tekið er utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti. Markmiðið er að stuðla að betri og skilvirkari framkvæmd innan málaflokksins og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Þá leggur ríkisstjórnin áherslu á að forgangsraða fjármunum betur sem fara í málaflokkinn, t.d. til að tryggja betri þjónustu við þau sem fá hér vernd, jafna tækifæri í íslensku samfélagi, ekki síst meðal barna, stuðla að betri nýtingu mannauðs á meðal innflytjenda og samræma löggjöf og framkvæmd við Norðurlöndin. Með nýrri nálgun leggur ríkisstjórnin áherslu á mannúð og virðingu og unnið sé gegn skautun í íslensku samfélagi.

Ein af þeim aðgerðum, sem finna má í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, eru aðkallandi lagabreytingar á lögum um útlendinga til samræmingar við löggjöf á Norðurlöndum. Hluta af þeim breytingum sem nauðsynlegt er að ráðast í er einmitt að finna í því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir í dag, þ.e. frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.

Vorið 2023 voru samþykktar breytingar á lögunum en þær lutu m.a. að málsmeðferð endurtekinna umsókna, niðurfellingu réttinda hjá útlendingum sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og meðferð mála um ríkisfangsleysi. Með frumvarpi þessu er brugðist við hraðri þróun í málaflokknum og fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi. Þær breytingar sem lagðar eru til miða m.a. að því samræma reglur íslenska verndarkerfisins við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum annars staðar á Norðurlöndum. Þá er einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns.

Samhliða verulegri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd sem íslenskum stjórnvöldum hafa borist undanfarin ár, auk sífelldra breytinga á samsetningu á hópi umsækjenda, er mikilvægt að stjórnvöld geti brugðist við, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að sporna gegn misnotkun á kerfinu.

Að teknu tilliti til fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd, húsnæðisskorts og vaxandi álags á innviði landsins er ekki raunhæft að taka á móti rúmlega 4.000 umsóknum um alþjóðlega vernd á ári á næstu árum. Ríkisstjórnin, líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir, hefur á stefnuskrá sinni að fækka umsóknum um alþjóðlega vernd og stytta málsmeðferðartíma. Ég tel hér mikilvægt að árétta að flóttamannakerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi, er í hættu á dauðarefsingum, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þegar stjórnsýslan hér á landi stendur frammi fyrir áskorunum sem leiða af mikilli fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd er brýnt að rýna í þróunina í því skyni að meta hvort hún eigi sér eðlilegar skýringar eða hvort nauðsynlegt sé að breyta reglum eða framkvæmd hér á landi til að bregðast við stöðunni. Við slíka athugun þarf að taka mið af núverandi regluverki og framkvæmd hér á landi, alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði en jafnframt reglum og reynslu nágrannaríkja eins og annarra norrænna ríkja sem íslensk stjórnvöld bera sig gjarnan saman við.

Staðan er einfaldlega sú að verði ekki gerðar frekari breytingar á lögum um útlendinga um alþjóðlega vernd er fyrirséð að umsóknum mun áfram fjölga eða fjöldi þeirra standa í stað. Samhliða því munu framangreindar áskoranir stigmagnast og kostnaður vegna málaflokksins aukast.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, mun ég gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins: Í 1. gr. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á skipan kærunefndar útlendingamála. Núverandi skipan kærunefndar er þannig að tveir af sjö aðalmönnum hafa starfið að aðalstarfi, þ.e. formaður og varaformaður nefndarinnar. Hinir fimm aðalmennirnir hafa starfið að aukastarfi og mæta að jafnaði eingöngu á nefndarfundi á tveggja vikna fresti. Þróun innan málaflokksins hefur verið hröð og kærumál margfaldast. Erfitt hefur reynst fyrir kærunefndina að anna þessum fjölda og taka á málahala sem myndast hefur. Núverandi fyrirkomulag kærunefndar, þ.e. að meiri hluti nefndarmanna hafi nefndarstörfin að aukastarfi, hefur reynst þungt í vöfum auk þess sem það býður ekki upp á nægjanlegan sveigjanleika við afgreiðslu kærumála. Í megindráttum felst í fyrirhuguðum breytingum að nefndarmönnum verði fækkað úr sjö í þrjá sem hafi allir starfið að aðalstarfi. Áfram verður gerð krafa um að nefndarmenn hafi sérþekkingu á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, þar á meðal stjórnsýslurétti og mannréttindum. Með því að bæta við nefndarmanni sem hefur starfið að aðalstarfi er kærunefndinni gert kleift að afgreiða kærumál jafnóðum og þannig mæta auknum málafjölda. Þá er sú breyting til þess fallin að tryggja aukna sérþekkingu og viðveru innan nefndarinnar. Áréttað er að sérfræðingar kærunefndar annast rannsókn og eiginlega málavinnslu þó að endanlegt ákvörðunarvald liggi hjá nefndinni. Á því verður engin breyting með þeirri fækkun nefndarmanna sem hér er lögð til.

Í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins er lagt til að 2. mgr. 36. gr. laganna falli brott. Hvergi annars staðar á Norðurlöndum er sambærilegt ákvæði og er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sem gerir stjórnvöldum skylt að kanna sérstakar ástæður og sérstök tengsl í málum þeirra sem hafa hlotið vernd í öðru Evrópuríki, svokölluð verndarmál, og málum þar sem heimilt er að krefja annað ríki um að taka við umsækjanda, svokölluð Dyflinnarmál. Í þessu skyni ber að nefna að í öðrum ríkjum er Dyflinnarreglugerðinni beitt í þeim tilvikum sem heyra undir hana og verndarmálum er almennt vísað frá Evrópusambandsríkjum nema það teljist brot á meginreglunni um bann við endursendingu eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er því alveg ljóst að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er séríslensk málsmeðferðarregla. Því til viðbótar eru önnur norræn ríki ekki með lögbundna málsmeðferðarfresti við afgreiðslu þessara mála sem veita umsækjendum rétt á efnismeðferð ef tafir eru ekki á ábyrgð þeirra, líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 36. gr.

Í 6.–10. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem fela í sér að aðstandendur útlendinga sem fengið hafa viðbótarvernd eða mannúðarleyfi hér á landi öðlist ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en a.m.k. tveimur árum liðnum frá veitingu. Ákveðnar undanþágur verða frá þessu lögbundna tímamarki, þ.e. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða. Að jafnaði er hér einungis átt við ef viðkomandi var umönnunaraðili maka síns áður en hann yfirgaf heimaríki sitt eða ef viðkomandi á barn í heimaríki sem er í bráðri hættu, er þar án annars forsjáraðila eða á við alvarleg veikindi að stríða. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að útfæra nánar í reglugerð hvenær þessar undanþágur koma til skoðunar. Vakin er athygli á því að þessi breyting hefur engin áhrif á rétt aðstandenda fylgdarlausra barna sem hljóta viðbótarvernd hér á landi.

Viðbótarvernd og mannúðarleyfi eru dvalarleyfi sem er ætlað að mæta aðstæðum sem eru tímabundnar í eðli sínu og því er lagt til að þau veiti ekki rétt til fjölskyldusameiningar við útgáfu fyrsta leyfis. Breytingin tekur mið af danskri framkvæmd. Eins og rakið er í 4. kafla frumvarpsins er ekki talið að breytingin fari í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Þessar breytingar á rétti til fjölskyldusameiningar leiða óhjákvæmilega af sér samhliða breytingar á gildistíma dvalarleyfa. Eins og dæmin sanna geta aðstæður í ríkjum breyst tiltölulega fljótt. Þykir því eðlilegt að stjórnvöld endurmeti, áður en réttur til fjölskyldusameiningar og ótímabundins dvalarleyfis myndast, hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfisins séu enn fyrir hendi. Því er lagt til að gildistími dvalarleyfa þeirra sem njóta alþjóðlegrar verndar samkvæmt 1. mgr. 37. gr., 39. gr., 43. gr. og 45. gr. laganna verði þrjú ár í stað fjögurra ára, að gildistími dvalarleyfis þeirra sem njóta viðbótarverndar verði tvö ár í stað fjögurra ára og að gildistími vegna endurnýjunar á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði til eins árs í stað tveggja ára. Er þar tekið mið af sambærilegum gildistíma dvalarleyfa á þessum grundvelli annars staðar á Norðurlöndum.

Í 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á útgáfu bráðabirgðadvalarleyfis. Á grundvelli 77. gr. laganna er heimilt að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd bráðabirgðardvalarleyfi sem veitir honum heimild til að starfa hér á landi á meðan umsókn hans er til meðferðar. Þá er heimilt að veita útlendingi sem fengið hefur endanlega synjun um alþjóðlega vernd, sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Ákveðin skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að umsækjandi geti fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi, þar á meðal að ekki liggi fyrir ástæður sem geti leitt til brottvísunar hans. Slíkar ástæður eru fyrir hendi þegar niðurstaða Útlendingastofnunar um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd liggur fyrir. Þá fer það gegn markmiði laganna um sjálfviljuga heimför að útlendingur sem fengið hefur synjun á umsókn sinni um vernd sé hér í virkri vinnu á sama tíma og unnið er að brottför hans frá landinu. Í slíkum tilvikum liggur fyrir að útlendingur er í ólögmætri dvöl á landinu og getur yfirgefið landið sjálfviljugur, eftir atvikum með aðstoð stjórnvalda. Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að það verði skýrlega kveðið á um það í 77. gr. að umsækjandi geti einungis fengið bráðabirgðadvalaleyfi fram að því tímamarki þegar niðurstaða Útlendingastofnunar um synjun á umsókn hans liggur fyrir. Þess ber þó að geta að bráðabirgðadvalarleyfi er almennt gefið til sex mánaða í senn og gæti því umsækjandi verið með gilt bráðabirgðadvalarleyfi í einhvern tíma eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar enda er ekki lagt til í þessari tillögu að bráðabirgðadvalarleyfið verði fellt úr gildi þegar niðurstaða Útlendingastofnunar um synjun umsóknar liggur fyrir.

Í 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á reglum um sjálfviljuga heimför. Í úttekt föstu eftirlitsnefndarinnar á vegum Schengen-samstarfsins árið 2022 voru gerðar athugasemdir við gildissvið 7. mgr. 104. gr. laganna, nánar tiltekið að það nái einungis til útlendinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Að virtum athugasemdum nefndarinnar er lagt til að gerð verði breyting á málsgreininni þannig að heimilt sé að veita útlendingum sem ekki hafa sótt um alþjóðlega vernd aðstoð við heimför.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins en að öðru leyti vísast til greinargerðar frumvarpsins og athugasemda við einstök ákvæði þess.

Ég legg nú til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umræðu.